Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Johnsonius (Jónsson)

(1735–21. júlí)

Stjarnfræðingur.

Foreldrar: Jón Vigfússon eldri að Háafelli í Hvítársíðu og kona hans Ingibjörg Stefánsdóttir prests á Stað í Grindavík, Hallkelssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1754, stúdent þaðan 26. apr. 1757, talinn af Finni byskupi Jónssyni frábær gáfumaður, og Magnús amtmaður Gíslason segir hann vera mikinn hugvitsmann; var a.m.k. 1759 í þjónustu Magnúsar amtmanns Gíslasonar, umsjónarmaður frá 1760 með gerð og smíð steinhúsanna á Bessastöðum og í Nesi við Seltjörn, til þess er hann fór utan haustið 1762, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 15. jan. 1763, baccalaureus í heimspeki 29. júlí 1763, lauk embættisprófi í guðfræði 3. dec. 1766, með 3. einkunn, varð skömmu síðar observator í stjörnuturninum í Kh., varð skrifari landshagsnefndar 1770, ferðaðist með nefndarmönnum um landið og varð eftir hérlendis, er þeir fóru, fekk vonarbréf fyrir Staðastað 21. maí 1772 og jafnframt skipaður af konungi s.d. observator hér á landi með 80 rd. árslaunum, en vonarbréfið fyrir Staðastað var tekið aftur 5. maí 1774, og skyldi hann þá fá leigulausan bústað að Lambhúsum á Álptanesi og laun hans hækka í 100 rd., þegar Staðastaður losnaði.

Andaðist að Arnarhóli í Rv., ókv. og bl., og hafði lengi verið mjög heilsuveikur (brjóstveiki og þunglyndi); var þá skömmu fyrr byrjað á að koma upp stjörnuturni að Lambhúsum (Landfr.; HÞ.)


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.