Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Gíslason

(1783–16. júlí 1843)

Prestur.

Foreldrar: Síra Gísli Ólafsson á Breiðabólstað á Skógarströnd og kona hans Gunnhildur Jónsdóttir lögréttumanns að Háafelli í Hvítársíðu, Vigfússonar. F. að Flóagafli. Hann nam skólalærdóm hjá bróður sínum (síra Ólafi) og föður í 4 vetur, tekinn í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1801 og stúdent þaðan 1804. Í 2 vetur var hann kennari að Arnarstapa og í Stykkishólmi, síðan var hann hjá föður sínum, til þess er hann, 1808, setti bú í Galtardal, en síðan bjó hann í Vogi á Fellsströnd og í Elliðaey. Gengu þá mjög upp eignir þær, er hann hafði fengið með konu sinni. Var hvorugt þeirra hjóna hneigt til búskapar, en hann drykkfelldur og örlátur; urðu þau mjög fátæk.

Hann fekk 5. jan. 1819 Saurbæjarþing og vígðist þangað 4. apr. s.á.; bjó hann þar í Efra Múla, til þess er hann fekk Garpsdal 13. júní 1836, en Miðdalaþing 21. jan. 1843 og fluttist þangað (að parti í Snóksdal) um vorið, en andaðist eftir nokkurar vikur. Steingrímur byskup lýsti honum svo (1835), að hann væri gáfumaður mikill og vel að sér, frábær að mælsku, predikunarsnilld og barnafræðslu, og góðmenni. Nokkuð þókti hann hégómlegur af ætt sinni.

Kona (22. okt. 1807): Guðrún (d. 1842, 67 ára) Jónsdóttir prests og skálds að Bægisá, Þorlákssonar; fekk hún allar eignir móður sinnar (Margrétar í Galtardalstungu Bogadóttur frá Hrappsey), og voru þær miklar.

Hann fekk 1808 uppreisn vegna konu sinnar, sem áður hafði átt barn í lausaleik.

Börn þeirra síra Eyjólfs, þau er upp komust: Kristjana Margrét átti Magnús Nikulásson síðast á Narfeyri, Gísli skáld og barnakennari, síra Jón í Dýrafjarðarþingum, síra Þorkell á Staðastað, Ágústína Jóhanna skáldkona átti Einar Hallgrímsson í Stakkadal, Bogi d. 1848, ókv. og bl. (Vitæ ord. 1819; HÞ.; SGrBt.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.