Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Einarsson

(um 1682–1751)

Klausturhaldari.

Foreldrar: Einar sýslumaður Eyjólfsson í Traðarholti og kona hans Margrét Halldórsdóttir prests í Hruna, Daðasonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1699, hefir líklega orðið stúdent 1705. Bjó fyrst á Einarsstöðum í Reykjadal, erfði 1707 systkin sín, Halldór sýslumann, síra Grím á Staðarbakka og Katrínu, sem öll dóu í bólunni miklu 1707.

Bjó á Óslandi 1718, en árið eftir að Hofi í Skagafjarðardölum, í Syðra Vallholti 1730, en 1733 að Syðri Brekkum; síðast komust þau kona hans undir Eyjafjöll, í skjól síra Þorsteins Oddssonar í Holti, sem áður hafði greitt götu Eyjólfs, með því að leggja út fyrir hann 40 rd. í umboðsskuld; þar er þeirra getið í bréfi 1738 og heldur að minnkunarlegu framferði. Hélt Reynistaðarklaustur nokkur ár, en missti það vegna skulda. Dó í Reykholtsdal við mikla fátækt, jarðsunginn í Reykholti 26. apr. 1751.

Kona (1710): Björg Aradóttir frá Sökku í Svarfaðardal, Jónssonar.

Börn þeirra: Þorsteinn, Katrín, Jón, Kristrún átti Guðmund Arnþórsson, Ari (fór til Hollands), Helga átti 4 launbörn, Einar, Þorbjörg, Steinvör, Anna. Sum þessara systkina urðu með móður sinni sek um sauðatöku; var hún leyst undan með fé, en börnunum refsað. Eyjólfur átti enga hluttöku í þessu, og segja sumir, að af vanvirðu hafi hann látið af umboðsstörfum, en það var þó vegna skulda, enda varð sauðatakan 1733, eða löngu eftir að hann missti klaustrið, en það hélt hann 1714–15 og að hálfu 1716–17, og var gert fjárnám hjá honum 4. nóv. 1718; náðist lítið, því að heimanmundur konu hans var dreginn frá (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.