Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Björnsson

(6. ágúst 1666–22. nóv. 1746)

Prestur.

Launsonur Björns ráðsmanns á Melum í Melasveit Grímssonar (prests í Görðum, Bergsveinssonar) og Gróu Finnbjarnardóttur, sem síðar átti Tómas Jónsson. Ólst upp hjá frændkonu sinni Ásu Torfadóttur sýslumanns, Erlendssonar, og eftir að hún giftist, hjá henni og manni hennar, síra Helga Jónssyni á Melum, sem komu honum í kennslu hjá síra Birni Þórðarsyni á Signýjarstöðum (1 vetur) og síðan hjá síra Benedikt Péturssyni að Hesti (2 vetur). Tekinn í Skálholtsskóla 1681, stúdent þaðan 1687, fór utan s.á., skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 20. sept. s.á., var þar 2 ár, en lagðist í óreglu og kom til landsins 1689. Var hann kostaður af fóstru sinni, sem gefið hafði honum 26. apríl 1687 fulla og alla löggjöf eftir sig. Hafði hún ætlazt til, að Þormóður sagnaritari, bróðir sinn, tæki hann að sér, en úr því varð ekki, og virðist Eyjólfur hafa átt sök á því; samt skrifaði hann upp handrit fyrir Þormóð. Frá 1689 var hann ráðsmaður hjá fóstru sinni í Flekkudal í Kjós, en 1693 átti hann barn með konu þeirri, er hann kvæntist síðar; hún hafði áður (um 1687) átt barn (Helgu) með Þorleifi Sigurðssyni að Esjubergi; fekk hann uppreisn fyrir brot sitt og hennar 31. dec. 1709 og 5. apríl 1710. Hann bjó fyrst í Eyjum, síðan í Flekkudal, en síðast á Möðruvöllum í Kjós.

Fekk 3. jan. 1716 Snæúlfsstaði (Snæfoksstaði) í Grímsnesi, vígðist 24. maí s.á., tók sér aðstoðarprest (síra Jón Halldórsson, stjúpson sinn) 1739, en lét af prestskap 1741, fluttist að Klausturhólum 1742, en aftur að Snæúlfsstöðum 1745 29% og andaðist þar. Hann varð fátækur, meðan hann bjó í Kjós, en hafði stundum nokkurar tekjur af uppskriftum fornrita fyrir Árna Magnússon, enda var hann góður skrifari.

Kona 1 (1694): Ásdís (d. 22. ág. 1723) Ásmundsdóttir lögréttumanns að Tungufelli, Guðnasonar.

Börn þeirra, er upp komust: Tómas, Jón á Kröggólfsstöðum, Þorsteinn stúdent, Guðrún átti Ólaf stúdent og lögréttumann Jónsson í Haukadal, Guðlaug d. óg. og bl., Katrín átti Jón lögréttumann Þorgeirsson á Miðengi á Álptanesi, Ragnheiður átti Ólaf Guðmundsson að Gljúfri í Ölfusi.

Kona 2 (1728): Ingibjörg (f. 1684, d. 27. apríl 1771) Sumarliðadóttir í Brúsholti í Flókadal, Hálfdanarsonar, ekkja Halldórs Magnússonar í Skógarkoti. Dóttir þeirra síra Eyjólfs: Guðrún d. óg. og bl. (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.