Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Bjarnason

(1696–1778)

Prestur. Laungetinn sonur Bjarna Gunnarssonar í Ásgarði í Hvammssveit (í beinan karllegg af síra Arngrími lærða, Jónssyni) og Guðrúnar Guðmundsdóttur, er síðar (1710) átti Jón (d. 1730) Sturlaugsson að Hömrum í Laxárdal. Hann var með föður sínum í Ásgarði 1703, en er hann andaðist í bólunni miklu 1707, fór hann til Jóns sýslumanns Magnússonar í Búðardal (vegna skyldsemi við konu hans) og fluttist með honum norður að Ásgeirsá. Eftir að hann varð stúdent (1720), var hann fyrst 1 vetur hjá Jóni fóstra sínum, er þá bjó að Sólheimum í Sæmundarhlíð, en síðan í vetur í þjónustu Steins byskups Jónssonar; varð djákn á Reynistað vorið 1722, vígðist vorið 1724 aðstoðarprestur síra Björns Björnssonar að Reynistaðarklaustri og var hjá honum að Holtsmúla, fekk Reynistaðarklaustur 11. júlí 1727, bjó að Holtsmúla, síðar í Vík, fekk Þingeyraklaustursprestakall, í skiptum við síra Halldór Jónsson, 1751, en Ríp 1752, flosnaði þar upp 1756, í harðindunum, og komst jafnvel á verðgang með konu og 2 börn, en hafði nítt niður staðinn; var hann þá látinn gefa upp prestakallið og varð djákn að Hólum, en fekk Grímsey 1757 og hélt til dauðadags. Hann var jafnan mjög fátækur, enda drykkjumaður mikill, en vandaður maður, fáskiptinn og stilltur. Hann fær mjög lélegan vitnisburð hjá Harboe bæði um ræðugerð og barnafræðslu. Síra Jón Steingrímsson segir þó, að hann hafi verið einn með beztu söngmönnum og predikurum, ef hann notaði munntóbak; ella setti að honum ólundargeispa við embættisgerðir, og fór þá predikunin eftir því. Í sumum handritum er honum eignað kvæðið „Skjöldur“ (Lbs.), en það mun rangt.

Kona Í: Guðrún (d. af barnsförum 1726) Björnsdóttir prests að Holtsmúla, Björnssonar; þau bl.

Kona 2 (1727): Guðlaug (d. 1783) Arngrímsdóttir lögréttumanns á Syðri Brekkum, Tómassonar.

Börn þeirra, er upp komust: Guðmundur hreppstjóri í Sandvík í Grímsey, Arngrímur á Ljótsstöðum á Höfðaströnd, Ólafur, Jón, Eyjólfur (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.