Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Arnþórsson

(– –1635)

Prestur.

Foreldrar: Arnþór Ólafsson á Járngerðarstöðum í Grindavík og kona hans Vilborg Ketilsdóttir á Þorkötlustöðum (og Valdísar, systur Gísla byskups Jónssonar). Hann kemur fyrst við skjöl 1592 og er þá prestur, en 16. maí 1630 skipaði Oddur byskup Einarsson hann á framfæri staðanna, vegna elli, veikleika og fátæktar (þau hjón áttu þó a.m.k. eina jörð) og sneiddi þá hjá stöðum, sem frændur hans héldu, og var lagt út byskupi til vansæmdar, en samt virðist hann af bréfi Gísla byskups Oddssonar hafa andazt hjá honum í Skálholti. Samkvæmt vitnisburði ekkju síra Eyjólfs 8. júlí 1639 hafa þau verið saman 38 ár í Görðum á Akranesi, þ. e. 1593–1630, en hann getur hafa verið kominn þangað áður, eða verið prestur eða aðstoðarprestur þar eða annarstaðar.

Kona: Ingibjörg Jónsdóttir sterka að Svarfhóli í Laxárdal, Ólafssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Gróa átti launbarn (sem dó ungt) með Gísla Oddssyni, síðar byskupi, gekk síðan að eiga fyrst Björn Ásgrímsson, Björnssonar, og bjuggu þau víða á Akranesi, en síðar Guðmund Eyjólfsson, Anna átti Bjarna alþingishringjara Jónsson, sem nefndur var fýsikampur, og bjuggu þau að Gullsmiðsreykjum, Hallbera átti fyrr (-ágúst 1636) Jón Skálholtsbryta Nikulásson (bl.) , síðar Þorlák Jónsson prests í Reykjadal, Jónssonar (einnig bl.), Úlfhildur átti fyrr Ásmund Þorleifsson yngra, Ásmundssonar (bl.), síðar Erlend lögréttumann Bjarnason í Sauðholti í Holtum, Þorkell talinn skólagenginn (enn á lífi 24. júlí 1636), d. ókv. og bl. (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.