Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Þorvarðsson

(– –1576)

Lögmaður sunnan og austan 1521–52.

Foreldrar: Þorvarður lögmaður Erlendsson og f.k. hans Margrét Jónsdóttir (systir Stefáns byskups).

Var ungur með Stefáni byskupi. Bjó fyrst á Kolbeinsstöðum, síðan á Strönd í Selvogi, enda hélt hann lengi Árnesþing.

Talinn spekingur að viti og afarmenni, en hinn mesti ofsamaður við drykkju og gáði þá einskis. Hann varð að bana 1519 í Viðey Ormi Einarssyni í Saurbæ, mági sínum, og var síðan oft riðinn við hryðjuverk. Var hann fyrir ýmsar sakargiftir dæmdur frá lögsögu 1553 og fé hans fallið konungi. Fekk hann leyst eignir sínar með konungsbréfi 27. jan. 1558.

Kona 1 (1525). Þórunn Sturludóttir sýslumanns að Staðarfelli, Þórðarsonar.

Börn þeirra: Jón, Guðbjörg átti fyrr Grím sýslumann Þorleifsson að Hólum í Eyjafirði, síðar Jón sýslumann Marteinsson (byskups.

Kona 2 (1541): Guðrún Jónsdóttir sýslumanns að Geitaskarði, Einarssonar, og getur ekki barna þeirra. Sumstaðar er 3. kona Erlends nefnd Arnleif, en barna ekki getið.

Laundóttir Erlends lögmanns (með Ingveldi Jónsdóttur): Margrét átti Þórólf Eyjólfsson á Hjalla (Saga Ísl. IV; Dipl. Isl.; Safn II; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.