Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Þorsteinsson

(1734–11. mars 1764)

Prestur.

Foreldrar: Þorsteinn Þorkelsson á Oddsstöðum í Vestmannaeyjum og kona hans Þorbjörg Pétursdóttir. Tekinn í Skálholtsskóla 1751, stúdent þaðan 28. apríl 1757, með lofsamlegum vitnisburði. Varð 10. febr. 1758 djákn í Odda, en fór þaðan haustið 1758 og gekk í þjónustu Þorsteins sýslumanns Magnússonar á Móeiðarhvoli. Fekk Árnes (var skipað að fara þangað) 10. jan. 1760, vígðist 11. maí s.á. og var þar til dauðadags; andaðist úr brjóstveiki. Honum búnaðist vel þenna stutta prestskapartíma, þótt hann kæmi mjög fátækur að Árnesi. Var vel látinn, stilltur maður og mjög aðgætinn um embættisverk.

Kona (1761): Ingiríður (f . um 1733, d. í Gaulverjabæ 3. júní 1811, 78 ára) Sigurðardóttir prests í Holti undir Eyjafjöllum, Jónssonar. Áttu þau 1 dóttur, sem andaðist ung (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.