Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Þorgrímsson

(– – um 1588)

Prestur. Hann kemur fyrst við skjöl 1546 og er þá orðinn prestur, en óvíst hvar, en hitt er víst, að í 36 ár var hann prestur á Staðarbakka; þar fekk hann ölmusupeninga 1585, en Miðfjarðarjarðir hafði hann að léni á sýslumannsárum Jóns sýslumanns Björnssonar á Holtastöðum, síðar á Grund.

Má vera, að hann hafi látið af prestskap um 1586, en 9. apríl 1588 er hann staddur, ef ekki til heimilis, á Mel í Miðfirði, og 9. maí 1591 er ekkja hans þar; getur því hafa haft þar uppeldi síðustu árin.

Sonur hans segir í vitnisburði 14. mars 1614, að hann hafi þá 16 vetur um fertugt, hafi alizt upp á Staðarbakka og oftast verið í þeirri sveit, þangað til hann var 28 ára; fellur þetta og allvel við það, er áður segir.

Kona: Helga Tómasdóttir (líkl. systir Árna, er seldi: síra Erlendi Skeggvaldsstaði). Þeirra sonur: Hallur, erfði Skeggvaldsstaði (Dipl. Isl.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.