Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Ólafsson

(um 1617–23. apríl 1697)

Prestur.

Foreldrar: Síra Ólafur Erlendsson á Breiðabólstað í Vesturhópi og kona hans Sigríður Þorvarðsdóttir í Stóra Skógi, Brandssonar (Moldar-Brands). Fór utan og var skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 31. dec. 1640, kom aftur til landsins 1645; mun hann hafa verið attestatus með lofi og hafði ágæt meðmæli frá Óla Worm (í 2 vitnisburðum), og getur þess í bréfum sínum (VII.), að hann sé vel að sér í fornfræði og hafi hjálpað sér í þeim efnum. Árið 1647 var hann heyrari á Hólum („sjö vetur svalt eg þar“, er haft eftir honum, og er þá vafalaust námstími hans þar talinn með), vígðist 1648 að Mel og var þar til dauðadags. Tók ekkja síra Arngríms lærða, Sigríður, heldur treglega við honum, því að hún vildi, að einhver sona sinna fengi prestakallið, og lokaði kirkjunni fyrst í stað, svo að hann varð að predika í kirkjugarðinum, og ekki virðist hann hafa tekið við staðnum til fulls fyrr en 1651. Hann þjónaði og Staðarbakka um hríð (1666).

Hann var maður auðugur og eftirgangssamur um það, er hann þóktist eiga, og átti því stundum málaþras við menn.

Tók 1696 dótturmann sinn, síra Pál Jónsson, til aðstoðarprests.

Kona: Þórunn Þorvaldsdóttir að Auðbrekku, Ólafssonar.

Börn þeirra: Steinunn átti fyrr síra Brynjólf Jónsson í Görðum á Álptanesi, en síðar Þórð klausturhaldara Þorleifsson í Kirkjubæ, Halldóra átti Þorstein sýslumann Benediktsson í Bólstaðarhlíð, Guðrún átti síra Pál Jónsson á Mel, Sigríður átti Markús Pálsson á Syðri Völlum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.