Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Ólafsson

(18. ágúst 1706–9. nóv. 1772)

Sýslumaður.

Foreldrar: Síra Ólafur Jónsson á Stað í Grunnavík og kona hans Þórunn Pálsdóttir prests á Mel Jónssonar. Var tekinn til fósturs í Skálholti af Jóni byskupi Vídalín 1712 og naut þar heimakennslu, var í Skálholtsskóla 1718–23, síðan í Hólaskóla 1723–5, stúdent þaðan 1725. Var á Mel í Miðfirði veturinn 1725–6, heyrari í Hólaskóla 2 vetur (1726–8), fór utan og var skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 13. nóv. 1728, var síðar stipendiarius í Árnasafni og hafði á hendi prófarkalestur á bókum þeim, sem Jón byskup Árnason lét prenta í Kh. Kom til landsins 1737, en fór utan aftur sama haust. Fekk veiting 27. mars 1742 fyrir Ísafjarðarsýslu frá Jónsmessu 1742 og tók við um: haustið. Bjó þar fyrst í Súðavík til 1748, þá í Ögri, síðast að Hóli í Bolungarvík (er kominn þangað 1756). Hann fekk sterk meðmæli frá Hans prófessor Gram, er telur hann mjög vel að sér í lögum (einkum fornlögum), sögu og fornfræði. Síra Ormur Bjarnason á Mel kallar hann (í bréfi 1761) „merkismann að viti og mannprýði“. Eigi að síður átti hann nálega sífelld málaferli og var annað veifið dæmdur frá embætti (á alþingi 1754 og 1755, sektaður þar í 2 málum 1760, og því vikið frá af amtmanni 21. júlí s. á., dæmdur frá af yfirdómi á alþingi 1762 og 1763, enn í héraði 1767 og af varalögmanni 1768), en náði jafnan sýslunni aftur, 1756 fyrir yfirdómi á alþingi, 24. apríl 1765 með hæstaréttardómi (þó þá sektaður fyrir hirðuleysi), 1768 sýknaður af Sveini lögmanni Sölvasyni, staðfest í yfirdómi á alþingi 19. júlí 1769 og loks í sama dómi 21. júlí 1770 (sjá alþingisbækur þessi ár). Voru sumar kærur á hann ekki fagrar, enda fekk hann ekki gott orð. Var hann utanlands í málum sínum 1755, 1761 og 1764. Hann var maður vel að sér og hefir samið lagaritgerðir: Hundrað silfurs, ritgerð um Bergþórsstatútu, enn fremur ritgerð á dönsku um viðreisn Íslands, byrjaði og að þýða Jónsbók á dönsku (um allt þetta sjá Lbs.). Hann var og hagmæltur (1 brúðkaupskvæði er eftir hann í Lbs.).

Hann var ágætur skrifari og hefir skrifað upp sum merk handrit (sjá Lbs.).

Kona (dönsk): Birgitta Andresen Kvist.

Börn þeirra: Lárentius í Tungu, síðar að Hóli, Ólafur lögsagnari í Hjarðardal, Andrés, Kristín átti Guðmund Jónsson, Sofía átti Þorlák sýslum. Ísfjörð, Þórunn f.k. síra Guðmundar Þorvaldssonar (þau bl.) (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.