Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Vigfússon

(um 1733–12. eða 14. júlí 1812)

Prestur.

Foreldrar: Vigfús lögréttumaður Sigurðsson í Hjörsey og kona hans Sigríður Guðmundsdóttir í Álptanesi á Mýrum, Sigurðssonar lögmanns í Einarsnesi, Jónssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1752, stúdent þaðan 7. maí 1759, talinn í tornæmara lagi. Var síðan hjá foreldrum sínum, fekk uppreisn fyrir barneign 1760 (sjá síðar). fekk veiting fyrir Staðarhrauni 5. maí 1767, vígðist 9. júní s.á., fekk Nesþing 8. mars 1780 og bjó þar að Þæfusteini, var sektaður með konungsbréfi 2. júlí 1790 fyrir að hafa fermt 3 börn ólæs.

Hann lét af prestskap í fardögum 1792, fluttist þá að Gufuskálum og var þar til dauðadags. Hann eyddi öllu erfðafé sínu, enda var hann ráðlítill og drykkfelldur. Hann var þrekinn mjög á velli og svo rammur að afli, að enginn vissi krafta hans.

Hann þókti lélegur prestur, en var stilltur maður utan öls.

Kona 1: Kristín (d. 1778) Eyjólfsdóttir spaka lögréttumanns í Eyvindarmúla, Guðmundssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Þórður í Keflavík, Sigríður átti Hreggvið skáld Jónsson í Eiríksbúð við Hellna og víðar, Margrét átti Jón Árnason að Gufuskálum, Eyjólfur í Skíðsholti, Þórður yngri í Einholtum, Vigfús (drukknaði 21. dec. 1781, 21 árs).

Kona 2 (1779). Halla Rannveig (d. 25. febr. 1809, 65 ára) Sigurðardóttir prests í Holti í Önundarfirði, Sigurðssonar. Dóttir þeirra: Elín Kristín átti Jón Jónsson síðast að Gufuskálum, áður prentara á Hólum.

Launsonur hans (með Margréti Sigurðardóttur í Einholtum, Þorvarðssonar) var Jón hreppstjóri á Hindarstapa, merkismaður (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.