Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Sigurðsson

(um 1729–1800)

Lögfræðingur.

Faðir: Sigurður (d. 1768) Jónsson að Ytri Brekkum í Skagafirði. Tekinn í Hólaskóla 1744, stúdent þaðan 27. maí 1751, talinn í vitnisburðarbréfinu hafa heldur góðar námsgáfur.

Varð djákn að Þingeyraklaustri 1757, átti þar launson, Magnús (f . 21. okt. 1758, jarðsettur 4. nóv. s. á.), með Ástríði Bjarnadóttur sýslumanns, Halldórssonar; er talið, að þeim væri meinað hjónaband af föður hennar, og átti hún síðar Halldór sýslumann Jakobsson. Fór utan 1758, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 22. dec. s. á., lauk prófi í lögum 22. maí 1762, með með 2. einkunn í báðum prófum. Kom samsumars til landsins aftur og gerðist aðstoðarmaður Jóns sýslumanns Snorrasonar á Ökrum, og kveður Sveinn lögmaður Sölvason (í bréfi 1763) afgreiðslu alla hjá Jóni sýslumanni síðan ganga sem hjá öðrum, muni Erlendur vel fallinn til sýslustjórnar, enda ráðdeildarmaður.

Samt fekk Erlendur aldrei sýsluvöld, en bjó að Ytri Brekkum eftir föður sinn, embættislaus til dauðadags og hafði jafnan heldur þungt orð.

Kona: Karítas Sigurðardóttir sýslumanns hins sterka í Dalasýslu (áður Hólarektors), Vigfússonar. Hún hafði áður átt launbörn með ýmsum og tvívegis Verið gift. Af börnum þeirra Erlends komst upp 1 sonur, Vigfús, varð ólánsmaður, f. um 1773, drukknaði fram undan Ánanaustum í Rv. 10. dec. 1806 (Tímar. bmf. III; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.