Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Nikulásson

(um 1706–Í júlí 1784)

Heyrari, umboðsmaður, stúdent.

Foreldrar: Nikulás sýslumaður Einarsson á Reynistað og kona hans Ragnheiður Pálsdóttir prests á Melstað, Jónssonar. Ólst upp hjá síra Jóni Árnasyni á Stað í Steingrímsfirði, síðar byskupi, og konu hans, Guðrúnu, föðursystur sinni, fór með þeim í Skálholt 1722, tekinn þar í skóla sama haust, stúdent 1726, síðan skrifari byskups, en var heyrari í Skálholti 2 vetur (1729–31) , fór síðan norður í Húnavatnsþing og setti bú að Ásum í Svínavatnshreppi, eignarjörð sinni, en búnaðist ekki vel. Tók við umboði Strandajarða 1734 og síðan Vatnsdalsjarða og var alllengi framan af í þjónustu Bjarna sýslumanns Halldórssonar á Þingeyrum, enda gekk hann í ábyrgð fyrir hann um afgjald Strandajarða, er taka skyldi þær af honum, en því umboði sagði hann lausu 29. júlí 1766 og sleppti því algerlega næsta ár. Komst síðast í fátækt, fór til dóttur sinnar að Másstöðum í Vatnsdal og andaðist þar úr hor. Hann var heldur vel að sér og skrifari góður, drykkfelldur og óeirinn í drykkju.

Kona: Ingiríður (d. 1777) Ólafsdóttir, Ólafssonar (frá Auðbrekku, Þorvaldssonar). Dóttir þeirra: Guðrún átti Tómas Hafsteinsson á Másstöðum (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.