Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Magnússon

(um 1695–24. dec. 1724)

Prestur.

Foreldrar: Magnús Jónsson að Vatnabúðum í Eyrarsveit og f.k. hans Jóreiður Jónsdóttir.

Tekinn í Skálholtsskóla 1708, stúdent þaðan 1714. Var síðan djákn eða exercitiarius í Skálholti, til þess er hann fór utan, 1716, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 18. jan. 1717 og lauk prófi í guðfræði 7. júní s. á., með 1. einkunn. Varð rektor í Skálholti haustið 1718, sleppti því starfi 1723 (og kom það til, að Jón byskup Árnason vildi breyta launagreiðslu hans, og vægur þókti byskupi hann í kröfum til nemanda í stúdentsprófi), varð þá rektor að Hólum veturinn 1723–4, fekk konungsveiting fyrir Odda 3. mars 1724, vígðist 22. okt. s. á., andaðist þar ókv. og bl. Hann var talinn afbragðs gáfumaður og manna bezt að sér jafnaldra sinna. Ritgerð hans (heimspekileg og guðfræðileg) um Krist sem guðmann, er ekki lengur kunn. Hann þókti og snjallt latínuskáld, og eru kvæði hans í Lbs., sjá og JH. Bps. I (Saga Ísl. VI; HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.