Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Hannesson

(um 1740–12. dec. 1813)

Prestur.

Foreldrar: Hannes Vigfússon að Hofi á Kjalarnesi og f.k. hans Helga Sigurðardóttir eldra sýslumanns í Árnesþingi, Sigurðssonar. Ólst upp hjá frændum sínum, síra Vigfúsi og Torfa Erlendssonum. Tekinn í Skálholtsskóla 1759. Stúdent þaðan 1764, vígðist 3. júlí 1769 aðstoðarprestur síra Vigfúsar Erlendssonar að Setbergi, gegndi prestverkum eftir lát hans til 1782, bjó á Grund í Eyrarsveit, fekk Kvennabrekku 23. apríl 1783, en Gufudal, í skiptum við síra Magnús Einarsson, 2. apríl 1790, gegndi þó prestsverkum að Kvennabrekku til 1791, enda þóktist hann blekktur í skiptunum, sagði af sér prestskap 28. jan. 1806 frá næstu fardögum, bjó síðan á Hofstöðum í Gufudalssveit til 1812, en fluttist þá að Stað á Reykjanesi og andaðist þar (þá talinn 74 ára).

Hann var mikill maður vexti og skörulegur, rammur að afli, stilltur maður og ráðsettur, búmaður góður, góður ræðumaður, en ekki mikill raddmaður, hagorður nokkuð (sjá Lbs.).

Kona 1: Hólmfríður (d. 9. ág. 1780) Runólfsdóttir prests að Setbergi, Runólfssonar.

Börn þeirra: Síra Runólfur að Brjánslæk, Vigfús stúdent, Þóra dó ung úr holdsveiki.

Kona 2: Jarþrúður Ólafsdóttir prests að Ballará, Einarssonar, ekkja Guðmundar stúdents Péturssonar.

Sonur þeirra: Hannes skósmiður í Rv. Þau Jarþrúður voru gefin saman 21. júlí 1798, en Hannes fæddist 20. dec. s. á., þókti nokkuð skammt í milli, en eftir nokkurar bréfagerðir úrskurðaði kanzellíið 24. dec. 1799, að síra Erlendur fengi að halda embætti sínu, og hafði hann þá um vorið tekið síra Runólf, son sinn, til aðstoðarprests (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.