Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Guðmundsson

(um 23. nóv. 1748–25. sept. 1803)

Prestur.

Foreldrar: Síra Guðmundur Jónsson að Krossi í Landeyjum og f.k. hans Þórhildur Jónsdóttir prests að Kálfatjörn, Ólafssonar. Ólst upp hjá föðurbróður sínum, síra Þórði Jónssyni á Stað í Grindavík, sem kenndi honum og kom honum í Skálholtsskóla 1763; þaðan varð hann stúdent 10. maí 1769, og er að ráða af vitnisburðinum, að iðjusemi hans hafi eigi samsvarað gáfunum.

Var um 1770 í þjónustu Jóns varalögmanns Ólafssonar að Miðhúsum á Reykjanesi, vígðist 11. okt. 1772 aðstoðarprestur síra Guðmundar Ingimundarsonar í Hofteigi, fekk það prestakall 16. júlí 1774, við uppgjöf síra Guðmundar, fekk Kolfreyjustað 20. ág. 1799, tók við staðnum 12. júní 1800, gegndi og prestsverkum í Stöð, ásamt prestakalli sínu, 1802–3, sókti um það prestakall 22. sept. 1802, en andaðist (áður en til veitingar kæmi) váveiflega í flæðarmáli í Eskifjarðarkaupstað, og var talið, að hann hefði fargað sér, enda var hann mjög þunglyndur og undarlegur í skapi, jafnan mjög fátækur.

Hann var skáldmæltur, og eru kvæði hans nokkur og brot úr þýðingu hans á landfræði („Kjarna“) Gotth. Werners í Lbs.

Kona 1 (1773). Helga (d. 1776) Guðmundsdóttir prests í Hofteigi, Ingimundarsonar.

Börn þeirra: Síra Guðmundur á Klifstað, Ingibjörg dó ung.

Kona 2 (4. sept. 1781): Ragnheiður (d. að Gilsá 10. nóv. 1816, 76 ára) Ólafsdóttir prests í Kirkjubæ í Tungu, Brynjólfssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Þórður, Ólafur var skáldmæltur, skyldi ganga skólaveginn (lærði 5 vetur hjá föður sínum), lenti á hrakningi, Helga átti Jón Björnsson að Gilsá í Breiðdal (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.