Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erlendur Guðmundsson

(1758 – –)

. Bóndi. Foreldrar: Guðmundur (d. 1779) Erlendsson á Torfalæk (á Hurðarbaki á Ásum, Bessasonar í Nýlendu hjá Gunnsteinsstöðum, Jónssonar) og Sesselja Sveinsdóttir í Litladal, Oddssonar. Arfleiddur af föður sínum, er virðist hafa verið efnaður. Var ungur við nám hjá Bjarna landlækni Pálssyni, og vildi Magnús sýslumaður Gíslason að hann yrði læknir í Húnavatnssýslu (bréf til amtmanns 6. jan. 1789) og lagði til, að hann gengi undir eitthvert próf. Úr því varð ekkert, en eitthvað mun Erlendur hafa fengizt við lækningar. Bjó á Torfalæk frá því nokkru eftir 1780 til 1807, er hann hvarf skyndilega um haustið. Fór til selveiða á báti með mótbýlismanni, Ólafi Benediktssyni. Ólafur fannst dauður í flæðarmáli, en Erlendur sást ei síðar.

Haft var eftir Daða fróða Níelssyni, að Erlendur væri 25 árum síðar í Árnesi í Trékyllisvík og kallaði sig Guðmund Erlendsson. Erlendur var greindur maður og allvel að sér, „ofláti mikill, en þýðlegur á mann“ (Gísli Konráðsson í Húnvetningasögu). Kona: Guðrún (f. 1751) Skúladóttir á Neðri-Mýrur, Björnssonar; þau bl. Hún átti síðar Ólaf stúdent Ingimundarson á Torfalæk, en dóttir hennar (með Bjarna, bróður síra Björns Jónssonar í Bólstaðarhlíð) var Sigurlaug, er átti Arnbjörn stúdent Árnason á Stóra-Ósi (Blanda IV; M.B.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.