Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Erasmus Snorrason

(– –1647)

Prestur.

Foreldrar: Snorri (d. 1648) lögréttumaður Ásgeirsson að Varmalæk og Í. k. hans Maren Erasmusdóttir prests á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Villadssonar. Hann mun hafa haldið fyrst Keldnaþing 1623–37, og bjó hann þá í Bolholti, en í fardögum 1637 Skúmsstaðaþing, sem hann hélt til dauðadags, því að uppreisn hefir hann fengið fyrir lausaleiksbrot 1638 með Gróu Jónsdóttur (sakeyrisreikningar Rangárþings 1638–9), sem hann gekk að eiga síðar. Hann er víða talinn tvíkvæntur, en það er vafasamt. Hitt er víst, að kona hans var Gróa Jónsdóttir (sú er áður getur).

Börn þeirra: Gísli að Svarfhóli í Geiradal, síðar að Hafnarhólmi, Ingibjörg, tvígift, s. m. Sæmundur Ásmundsson í Sumarliðabæ (sjá BB. Sýsl.), Halla átti launbarn með bræðrungi sínum Einari Gunnlaugssyni, átti síðan Einar Snæbjarnarson frá Hlíð í Þorskafirði. Sumir segja, að með annarri konu (sem þeir nefna ekki) hafi síra Erasmus átt: Bjarna, Guðrúnu, Gróu og Margréti, sem ella eru ókunn; ef rétt er, hefir sú kona verið f.k. hans (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.