Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eldjárn Hallgrímsson

(28. ág. 1748–28. apríl 1825)

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Síra Hallgrímur Eldjárnsson síðast á Grenjaðarstöðum, og kona hans Ólöf Jónsdóttir prests á Völlum, Halldórssonar. Tekinn í Hólaskóla 1763, stúdent þaðan 1770, myndi hafa tekið próf 1769, en átti 1768 barn í lausaleik og fekk ekki uppreisn fyrr en 1769.

Talinn af Árna byskupi Þórarinssyni hafa allgóðar gáfur, en en eigi hneigður til guðfræði.

Hann var lengi að Hofi á Höfðaströnd hjá Ingibjörgu Ólafsdóttur (bryta, Jónssonar). Hann bjó á Brúarlandi, Enni á Höfðaströnd, Háleggsstöðum í Deildardal, andaðist í Miklagarði.

Hann var jafnan fátækur, enda átti hann ómegð mikla; karlmannlegur að vexti, hraustur að afli og frækinn. Hann var skáldmæltur (Lbs.).

Kona (um 1787): Kristrún (f. 1762) Eyjólfsdóttir prests á Brúarlandi, Sigurðssonar.

Börn þeirra (1–2 fædd fyrir hjónabandið): Hallgrímur á Vatnsenda í Ólafsfirði, Egill (drukknaði í Njarðvíkum syðra 1813), Eyjólfur í Smiðsgerði, Jón, Sigfús hreppstjóri á Arnarstöðum í Eyjafirði, Þórvör átti fyrr Jón Sigurðsson að Kolugili, en síðar Bjarna Jónsson að Úlfagili, Guðrún átti Jón Jónsson í Brekkukoti í Óslandshlíð, Solveig átti Einar Jónsson frá Sandhólum, Þorkelssonar, Guðrún yngri s. k. Ásmundar hreppstjóra Gíslasonar að Þverá.

Laundóttir hans (með Ragnhildi Tómasdóttur frá Axlarhaga, Eiríkssonar) er talin Kristín (HÞ.; SGrBf. aftan við Hallgrím Eldjárnsson á Grenjaðarstöðum).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.