Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Þorsteinsson

(11. nóv. 1669–S8. nóv. 1738)

Prestur.

Foreldrar: Síra Þorsteinn Gunnlaugsson, síðast prestur í Steinnesi, og kona hans Dómhildur Hjaltadóttir lögréttumanns í Teigi í Fljótshlíð, Pálssonar.

Fór ungur í fóstur til föðurbróður síns, síra Gunnlaugs Sigurðssonar í Saubræ í Eyjafirði, var þar í 13 ár (til þess er síra Gunnlaugur andaðist), fór þá (1685) til föður síns að Steinnesi, tekinn í Skálholtsskóla 1686, stúdent þaðan 1691, með lofsamlegum vitnisburði.

Var á sumrum á skólaárum sínum í þjónustu Gísla Magnússonar (Vísa-Gísla). Var veturinn 1691–2 kennari að Núpi í Dýrafirði, hjá Páli sýslumanni Torfasyni, en 1692–5 í Vatnsfirði, hjá síra Hjalta, bróður sínum. Fór utan 1695, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 15. okt. s.á., attestatus í guðfræði 1696, kom þá út og var heyrari í Skálholti 3 ár (1696–9). Fekk vonarbréf fyrir Stað á Reykjanesi 25. apríl 1699, vígðist og fluttist þangað s.á., gegndi jafnframt Garpsdal 1708–20, meðan þar var prestlaust, var prófastur í Barðastrandarsýslu 1712–26, fekk Saurbæ í Eyjafirði 1726 og hélt til dauðadags, en tók síra Gunnlaug, son sinn, til aðstoðarprests 1736. Hann var latínuskáld (Lbs. 505, 4to.).

Kona (1702): Helga (f. 1678, d. 1746) Björnsdóttir prests í Miklabæ, Skúlasonar.

Börn þeirra, er upp komust: Síra Gunnlaugur að Munkaþverá, síra Þorsteinn að Vesturhópshólum, Skúli (,Stutti“ Sk., „Litli“ Sk.) á Laugalandi í Reykhólasveit (d. 2. mars 1804, 84 ára, „úr ánasótt“ í Hlíð í Þorskafirði), Elín átti síra Eirík Jónsson að Hofi á Skagaströnd, Sigríður átti (1727) launbarn með smalapilti foreldra sinna, varð síðan s. k. Þorsteins Eiríkssonar á Ásmundarstöðum á Sléttu, Dómhildur átti fyrst síra Þorstein Ketilsson að Hrafnagili (s.k. hans), síðar síra Jón Sigurðsson að Kvíabekk, einnig s. k. hans (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.