Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Þorleifsson

(8. mars 1774 [1773, Vita] –21. ágúst 1843)

Prestur.

Foreldrar: Síra Þorleifur Sæmundsson á Stað í Kinn og kona hans Þóra Ketilsdóttir prests í Húsavík, Jónssonar. Tekinn í Hólaskóla 1788, stúdent 13. maí 1797 (var í vetur ekki í skólanum), með þeim vitnisburði, að þótt hann hafi ekki sérlega skarpar gáfur, sé iðjusemin óþreytandi. Vígðist 8. júlí 1798 aðstoðarprestur föður síns, fekk Svalbarð í Þistilsfirði 20. sept. 1800, fluttist þangað vorið 1801, vegnaði honum þar mjög illa vegna harðinda og fátæktar, fekk Þönglabakka 1805, og lá við, að hann flosnaði þar upp, var 1812 látinn fá Grímsey, í skiptum við síra Kristján Þorsteinsson, og vegnaði honum þar allvel, fekk Stað í Kinn 7. sept. 1826, fluttist þangað sumarið 1827 og hélt til dauðadags, en hafði aðstoðarprest (síra Jón Kristjánsson) frá 1836. Hann þókti sæmilegur ræðumaður, en raddmaður stirður, kaldlyndur og deilugjarn.

Kona 1 (17. okt. 1798): Kristín Ingveldur (f. um 1776, d. í Grímsey 17. júlí 1827) Jónsdóttir á Bjarnastöðum í Unadal, Pálssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Valgerður átti Jónas hreppstjóra Sigfússon Bergmann í Garðsvík, Hjálmar að Vilpu í Húsavík, Jóhanna átti Þorstein gullsmið Jónsson að Rauðaskriðu.

Kona 2 (8. okt. 1830): Sigríður (d. 18. mars 1898, á 99. ári) Þorbergsdóttir í Glæsibæ í Skagafirði, Jónssonar. Synir þeirra: Þorbergur í Syðri Tungu á Tjörnesi, Sæmundur að Kaldbak á Tjörnesi, fór til Vesturheims 1882 (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.