Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Þorgrímsson

(f. hl. 17. aldar)

Kaupmaður.

Foreldrar: Þorgrímur byssuskytta á Bessastöðum (danskur að faðerni, en íslenzkur í móðurætt) og kona hans Þuríður matreiðslukona á Bessastöðum Eiríksdóttir (Ólafssonar prests að Kvennabrekku, Ólafssonar).

Lærði í Skálholtsskóla, en ekki öldungis víst, að hann hafi orðið stúdent. Fór síðan til Englands, kvæntist þar tvisvar, kom oft til landsins með enskar vörur og ferðaðist með varning sinn um landið. Andaðist í Englandi. Var hið mesta hraustmenni og kallaður Eiríkur sterki eða Eiríkur Grímason.

Skírgetinn sonur hans hét Vilhjálmur, lærði í Hólaskóla, en fór síðan utan.

Launsonur Eiríks hét Gunnlaugur, gildur maður að karlmennsku, bjó að Geithömrum í Svínadal 1703, Tl árs (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.