Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Vigfússon

(um 1624–29. ág. 1692)

Prestur,

Foreldrar: Vigfús Eiríksson að Langárfossi, síðar að Stóra Ási í Hálsasveit, og kona hans Guðlaug Björgólfsdóttir frá Stóra Ási. Hann mannaðist hjá síra Þórði Jónssyni í Hítardal, sem kom honum í Skálholtsskóla, og vígðist hann 27. mars 1653 aðstoðarprestur síra Þórðar, fekk veitingar- eða vonarbréf fyrir Hjarðarholti hjá Tómasi fógeta Nikulássyni (og því eigi síðar en 1665), fluttist þangað 1667, en missti prestakallið 1686 (vegna barneignar með Halldóru Daðadóttur í Galtardalstungu, Þorvaldssonar, og átti hún síðar Orm Ólafsson á Goddastöðum, og var dóttir þeirra síra Eiríks með þeim þar 1703, Kristín (17 ára). Prófastsdæmi hélt hann í Dalasýslu 1669–86. Fekk uppreisn 24. dec. 1686. Fluttist á eignarjörð sína, Stóra Ás, sókti um Húsafell, enda kallaður og til kjörinn af sóknarmönnum, 16. ág. 1691, gegndi þar og prestsstörfum, eftir lát síra Helga Grímssonar, en andaðist áður en prestakallið væri veitt.

Kona (konungsleyfi 11. apr. 1666 vegna skyldleika): Guðrún yngri (d. 1677) Steindórsdóttir sýslumanns að Ingjaldshóli, Finnssonar.

Börn þeirra: Síra Vigfús í Miðdalaþingum, Guðlaug f. k. síra Hannesar Halldórssonar í Reykholti (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.