Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Sölvason

(11. apr. 1663–15. júlí 1731)

Prestur.

Foreldrar: Sölvi Gunnlaugsson á Skjöldólfsstöðum (d. 1672) og Hjarðarhaga í Jökuldal og kona hans Helga Sigfúsdóttir prests í Hofteigi, Tómassonar. Lærði undir skóla hjá síra Páli Ámundasyni á Kolfreyjustað og var þar 5 ár (1679–84), tekinn í Hólaskóla 1684, stúdent þaðan 1686. Var kennari að Hólmum í Reyðarfirði 2 vetur (1686–8). Fór utan 1688, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 22. nóv. s. á.

Fekk háskólavottorð sín 20. febr. 1690 og fór síðan til Íslands, var næsta vetur að Hólmum, síðan í Hjarðarhaga og síðast á Kolfreyjustað. Fekk 1692 umboð eigna Þórðar byskups í Múlaþingi, síðar umboð prestajarða (prestatillagsjarða) þar og hélt ævilangt, enn fremur umboð byskupstíunda þar. Hóf búskap í Meðalnesi í Fellum 1696, fekk vonarbréf fyrir Þingmúla 7. maí 1698 og að mega vera aðstoðarprestur síra Bjarna Gizurarsonar þar, vígðist 17. júlí s. á. til þess að þjóna Mjóafirði, meðan Þingmúli losnaði ekki, þjónaði og Eiðasókn veturinn 1699–1700 og gerði prestsverk að Ási í Fellum haustið 1700, en bjó jafnan í Meðalnesi, til þess er hann tók við Þingmúla 24. maí 1702, og hélt hann þann stað til dauðadags, þótt síra Bjarni Gizurarson héldi einhverju af prestakallinu til 1712. Eftir síra Eirík er í handritum (Lbs.) annáll og minnisgreinir.

Kona: Jarþrúður Marteinsdóttir sýslumanns, Rögnvaldssonar.

Börn þeirra: Marteinn drukknaði bl., Sigfús skólagenginn, og taldi Jón byskup Árnason hann óhæfan til vígslu vegna vanþekkingar (1725), bjó að Aurriðavatni, Kristín átti síra Jón Gizurarson að Hálsi í Hamarsfirði, Guðmundur, Halldór lærði í Hólaskóla, en með því að hann var hneigður til smíða, tók hann að nema prentiðn á Hólum (1729–32), vann síðan að prentstörfum í Hamborg, Leipzig og Danzig, en var 1744 ráðinn til Hólaprentsmiðju og bjó að Neðra Ási í Hjaltadal, Vilborg átti Hall Einarsson í Njarðvík, Sölvi í Berunesi (Saga Ísl. V; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.