Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Sverrisson

(17. júlí 1790 [1789, Bessastsk.] –4. júlí 1843)

Sýslumaður.

Foreldrar: Sverrir Eiríksson í Kirkjubæ á Síðu og kona hans Sigríður Salómonsdóttir, Þorsteinssonar.

Tekinn í Bessastaðaskóla 1805, stúdent þaðan 1808, með ágætum vitnisburði, hóf búskap að Hurðarbaki í Flóa 1811, sókti tvívegis um prestaköll (1812 og 1817), en fekk ekki, þótt hann hlyti hin lofsamlegustu ummæli frá byskupi. Brá búi 1813, kom fyrir börnum sínum og var ýmist fulltrúi hjá sýslumanni í Árnesþingi eða við verzlunarstörf (bókhald) á Eyrarbakka. Fór utan 1820 og leysti vorið eftir af hendi próf í dönskum lögum, með 1. einkunn í báðum prófum. Gerðist þá fulltrúi Gríms Jónssonar, er þá var bæjarfógeti í Skelskör, en fekk Snæfellsnessýslu 13. maí 1823 og bjó í Mávahlíð, Borgarfjarðarsýslu 19. maí 1827, en fór þangað ekki, Mýra- og Hnappadalssýslu 24. maí 1828, bjó þar í Einarsnesi og síðar Hamri, fekk Rangárþing 19. apr. 1836, settist þá að í Kollabæ í Fljótshlíð og bjó þar til dauðadags.

Hann þókti ötull maður, harður nokkuð, vel að sér í lögvísi, en sumum þókti hann breytinn og á síðustu árum drykkfelldur. Í handritum (Lbs.) má finna eftir hann vísur og ritdóm um Fjölni. Var mikill vexti og þrekinn, ekki andlitsfríður né góðmannlegur.

Kona 1 (1811): Guðlaug (d. 21. okt. 1813) Eiríksdóttir í Bolholti, Jónssonar.

Dætur þeirra: Oddný d. óg. og bl., Kristín átti síra Jóhann Björnsson í Keldnaþingum (þau bl.), Sigríður átti fyrst laundóttur með Jóhanni G. Briem, síðar presti í Hruna, en átti síðan síra Pál Ingimundarson í Gaulverjabæ.

Kona 2: Kristín (f. 21. okt. 1790, d. 17. sept. 1876) Ingvarsdóttir í Skarði á Landi, Magnússonar. og var hún systurdóttir f. k. hans.

Börn þeirra, er upp komust: Guðlaug átti síra Gísla Jóhannesson á Reynivöllum, Ingibjörg átti Eggert sýslumann Briem, Sigríður átti síra Jón Þórðarson að Auðkúlu, Sigurður sýslumaður (Sverrisson) Í Bæ, Áslaug átti Magnús Stephensen (Ólafsson) í Viðey (Bessastsk.; BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.