Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Stefánsson

(– –1654)

Prestur. Af ómagadómum 2. maí 1622 og 24. sept. sést, að faðir hans hefir verið síra Stefán Guðmundsson að Undornfelli, og hefir síra Eiríkur flutzt á Suðurland annað hvort vegna frændsemi föður síns við Odd byskup Einarsson eða með Vigfúsi sýslumanni Þorsteinssyni og konu hans Önnu Eyjólfsdóttur að Stóra Dal undir Eyjafjöllum, og þar er hann heimilisprestur þeirra (eða í Miðmörk) 1593, síðar fekk hann Torfastaði í Byskupstungum, en Steinsholt 1601; vegna rangra vitnisburða var hann látinn hafa skipti við síra Gísla Bjarnason og taka við Krýsivík 1609, en fekk Hraungerði um 1625, er 1632 orðinn prestur í Klausturhóla- (eða Snæúlfsstaða) prestakalli, bjó hann þá og um hríð síðan að Búrfelli, en fluttist að Klausturhólum vorið 1635, að fyrirlagi byskups, missti prestskap 1647 vegna barneignar í tvöföldum hórdómi (sjá sakeyrisreikninga Árnesþings 1646–7), bjó síðan á eignarjörð sinni, Hraunkoti í Grímsnesi, til dauðadags.

Hann virðist hafa átt erfitt og ekki verið skilamaður.

Kona 1: Steinunn, laundóttir Magnúsar Eyjólfssonar í Stóra Dal undir Eyjafjöllum; sonur þeirra hefir verið Stefán, sá er byskup vísaði úr skóla vegna gáfnaleysis 5. nóv. 1634.

Kona 2: Sesselja Jónsdóttir (vinnukona hans, er hann hafði átt barn við). Dóttir þeirra var Valgerður s. k. Gísla Álfssonar að Reykjum, Gíslasonar. Í sakeyrisreikningum Árnesþings 1646–47 er legorðsbrot hans talið með Björgu Ásbjarnardóttur (HÞ.. SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.