Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Sigurðsson

(um eða skömmu fyrir 1650– fyrir 1703)

Bóndi (stúdent?).

Foreldrar: Síra Sigurður Árnason hinn síðari á Skorrastöðum og kona hans Guðrún Jónsdóttir prests að Hofi í Álptafirði, Einarssonar. Hann lærði í Skálholtsskóla, fekk vorið 1670 léðan hest hjá byskupi austur, er skóla var sagt upp; má vera, að hann hafi orðið stúdent þá, en engar sannanir eru fyrir því, að hann hafi orðið það. Hann bjó á Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd, að því er talið er, og mun hafa lifað fram yfir 1700.

Kona: Þuríður (f. 6. mars 1660) Hannesdóttir prests í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Björnssonar. Sigurður lögmaður Björnsson, föðurbróðir Þuríðar, telur börn þeirra: Vilborgu og 3 Sigurða; hefir hinn síðasti Sigurðanna komizt á legg, er 16 ára í Saurbæ 1703, með móður sinni (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.