Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Magnússon

(um 1528–1614)

Prestur.

Foreldrar: Magnús Einarsson lögréttumanns frá Dunhaga (Magnússonar) og kona hans Svanborg, er síðar átti Jón Einarsson á Melgraseyri (alsystkin síra Eiríks voru Bjarni á Melgraseyri og Agnes, sem átti Magnús Þorleifsson frá Haga). Sagnir eru um hann ungan, að Jón byskup Arason og menn hans hafi fundið hann, er þeir voru á leið til að taka Vatnsfjörð, í seli nokkuru í Vestfjörðum, 5 vetra gamlan, og hafi fólkið flúið frá honum, er það sá flokk byskups; er því sumstaðar nefndur „hinn fundni“. Sjálfur segir hann í vitnisburðum 8. jan. 1595 og 5. apr. 1598, að hann hafi komið 14 ára í Miðfjörð og verið þar lengi í þjónustu síra Björns Jónssonar á Mel. Djákn er hann orðinn 25. mars 1545.

Eftir það hefir hann orðið aðstoðarprestur síra Björns á Mel og síðan haldið Núp í Núpsdal í Miðfirði, því að þar voru stundum sérstakir prestar í þá daga, og þar fekk hann ölmusupeninga 1571 og 1574, en 1575 fekk hann Auðkúlu og skyldi einnig vera þingaprestur að Svínavatni (sem eftir þessu hafa áður verið sérstök prestaköll), var þar, til þess er hann lét af prestskap 1596, fluttist síðar til dóttur sinnar að Hrafnagili og kemur enn við skjöl 1613 á Grund í Eyjafirði.

Sonur hans (síra Magnús) segir í vitnisburði 28. júní 1623 í Skálholti, að faðir sinn hafi andazt 86 vetra og verið „barnfæddur í „Húnavatnsþingi“.

Hann hefir verið merkisprestur og búmaður, líkl. hagmæltur (vísa er honum eignuð sumstaðar, sem raunar finnst og eignuð 2 öðrum).

Kona: Guðrún Þorkelsdóttir.

Börn þeirra: Síra Magnús að Auðkúlu, Agnes átti síra Magnús Ólafsson að Laufási, Ingunn átti síra Gísla Jónsson að Hrafnagili, Ragnhildur átti síra Hall Ólafsson í Höfða, Helga átti fyrr Illuga Grímsson í Stóra Dal, síðar Halldór Pálsson á Grund í Svínadal, Þuríður átti Ólaf Þorkelsson í Krossanesi við Eyjafjörð, Margrét átti Jón Arnfinnsson í Bjarnastaðahlíð, Guðrún, Guðrún önnur (sögð laungetin) átti Gamalíel nokkurn (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.