Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Höskuldsson

(– –1677)

Prestur.

Foreldrar: Síra Höskuldur Einarsson í Heydölum og kona hans Úlfheiður Þorvarðsdóttir prests í Vallanesi, Magnússonar. Stúdent úr Skálholtsskóla, átti barn, meðan hann var í skólanum, vígðist 1628 prestur að Hálsi í Hamarsfirði, gegndi og prestsstörfum í Berufirði, a. m. k. frá 1631–3, missti prestskap um 1652 fyrir barneign í 2. sinn með Þorbjörgu Árnadóttur (sakeyrisreikningar Múlaþings 1652–3), líklega þeirri, er varð síðari kona hans. Fluttist þá að Papey og bjó þar til dauðadags, drukknaði á Papeyjarsundi eða í Papeyjarálum með s.k. sinni.

Hann var í Skálholti 1664 og reyndi að fá uppreisn til prestskapar (Brb. Brynjólfs byskups Sveinssonar), en ekki varð hann prestur aftur, hvort sem hann hefir fengið uppreisn eða ekki. Launbarn það, er hann átti í skóla, mun hafa verið Ingiríður, s.k. síra Jóns Jónssonar að Fellsmúla.

Kona 1: Valgerður Jónsdóttir að Krossi á Berufjarðarströnd, Egilssonar.

Börn þeirra: Eiríkur, Sigurður, Ólafur, Jón, Gunnsteinn, Halldóra átti Þórð Snorrason.

Kona 2: Þorbjörg (líkl. Árnadóttir, sú er áður getur).

Dætur þeirra: Guðrún, Katrín, Ólöf, Valgerður (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.