Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Hallsson

(– –1666)

Prestur.

Foreldrar: Síra Hallur Hallvarðsson, síðast í Bjarnanesi, og kona hans Sesselja Einarsdóttir prests í Heydölum, Sigurðsonar. Er í Skálholti 26. sept. 1620, en hefir skömmu síðar (fyrir 1631) orðið prestur að Þvottá, líklega til dauðadags. Að vísu ætlaði Gísli byskup Oddsson að láta hann fara frá 1635, vegna vanhalda á staðarfjám, og ætlaði staðinn síra Guðmundi Guðmundssyni að Berufirði, en ekki virðist hafa orðið af því, en jafnan voru hagir hans erfiðir, sem sjá má af bréfabókum Gísla byskups og Brynjólfs byskups og synodal- og visitazíubókum hans; skipta frændur hans og vinir á sig ábyrgð fyrir hann á staðarfjám. Í JS. 244, 8vo., og Lbs. 1014, 8vo., eru kvæðaflokkar af sögu Lúthers eftir Konrad Schlösselburg, orktir af „síra Eiríki Oddssyni“ að Þvottá „1687“. Enginn maður með þessu nafni hefir verið prestur að Þvottá. En ekki er óhugsanlegt, að hér sé átt við síra Eirík Hallsson og bæði föðurnafn hans misritað og ártalið misritað (fyrir 1657), ef ekki, er hér um að ræða síra Eirík Hallsson í Höfða (föður- og staðarnafn misritað). Í Lbs. 837, 4to., er þetta eignað síra Guðmundi Erlendssyni að Felli, en þó sama ártal (1687). Gæti helzt verið síra Jón Guðmundsson í Stærra Árskógi.

Kona: Ingibjörg Eyjólfsdóttir.

Börn þeirra: Síra Þorlákur að Þvottá, Sigurður stúdent á Starmýri(?), Eyjólfur (á Starmýri?), Vigfús, Hallur (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.