Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Hallsson

(1614–1698)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Síra Hallur digri Ólafsson að Höfða og kona hans Ragnhildur Eiríksdóttir prests að Auðkúlu, Magnússonar. Hefir orðið aðstoðarprestur föður síns eigi síðar en 1643, fekk prestakallið 27. apr. 1652, tók síra Hall, son sinn, sér til aðstoðarprests 1683, lét af prestskap 1686. Fekk misjafnt orð ungur, gerðist búhöldur mikill, harðbýll og féspar. Hann var gáfumaður, fornfróður og hefir orkt margt, sumt með tilþrifum, bæði sálma og kvæði (sjá Lbs.), og má telja hann með mestu skáldum sinnar tíðar; „Rógsvala“ (kvæði eftir hann) er pr. í Blöndu, I. Rímur hefir hann orkt geysimargar. Pr. eru Hrólfs rímur kraka eftir hann (11) og Þorvald (Magnússon?) (8) í Hrappsey 1777. Í Lbs. eru eftir hann rímur af: Agnesi píslarvotti, Apelles, Bekra, Búa, Cedras (með Jóni klausturhaldara Eggertssyni), Hrólfi Gautrekssyni (síðara hlutann, fyrri hl. er eftir Pétur Einarsson að Ballará), Jökli Búasyni, Páli postula, Píslarvottum, Samson fagra, Úlysses (einnig í AM.), Ými. (Í rithöfundaskrám eru honum eignaðar fleiri rímur, sem reynast vera eftir aðra; sumar kunna þó að vera glataðar. Nítíðarrímur, 17. aldar (17 að tölu, í Lbs. engum eignaðar) geta verið eftir hann).

Hann var vinur mikill Sigríðar stórráðu Magnúsdóttur og manna hennar beggja (Benedikts klausturhaldara Pálssonar og Jóns klausturhaldara Eggertssonar) og hefir orkt til hennar.

Kona 1: Margrét (–1659) Jónsdóttir; talin gæðakona, en þó var missætti með þeim hjónum, að því er virðist, sprottið af konu þeirri, er hann átti síðar, sem hann þó bauðst til að vinna eið fyrir að hafa haft afskipti af, enda komst sætt á með þeim, en skömmu síðar féll Margrét niður stiga og hálsbrotnaði eða rotaðist; hlauzt af kvis nokkurt, en síra Eiríkur sannaði með vitnisburðum, að hann hefði verið fjarstaddur þann dag, sem slysið varð.

Börn þeirra: Árni fór til Hollands; sumir telja og Guðrúnu, sem átti Hall Bjarnason prest í Grundarþingum, Hallssonar, Sesselju, sem átti Brand Jónsson við Mývatn, og Málmfríði.

Kona 2: Geirlaug Helgadóttir í Grímsnesi á Látraströnd, Ívarssonar.

Börn þeirra: Margrét átti launbarn með Magnúsi Benediktssyni að Hólum í Eyjafirði (og var hann þá kvæntur), gekk síðar að eiga Gísla lögréttumann, Ólafsson að Egilsá, Ragnhildur átti Eggert á Ökrum Jónsson (klausturhaldara Eggertssonar) , síra Hallur að Höfða (Blanda 1.; Saga Ísl. V; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.