Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Gíslason

(1690–um 1770)

Lögréttumaður, stúdent.

Foreldrar: Síra Gísli Eiríksson að Krossi í Landeyjum og kona hans Guðleif Jónsdóttir á Barkarstöðum, Eiríkssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1707, stúdent 26* 1714. Sagt er, að hann hafi verið sveinn Jóns byskups Vídalíns, en ekki hefir það verið lengi, ef rétt er, því að 13. nóv. 1715 vildi Jón byskup, að hann yrði prestur í Meðallandsþingum, og er að sjá sem Eiríkur ætti þá heima í Skaftafellsþingi; er að ráða af orðum byskups, að ekki hafi honum þókt Eiríkur vel fallinn til prestskapar. Varð hann og aldrei prestur, enda hefir hann brotið af sér rétt til prestsembættis (sjá alþb. 1726; þar getur umsóknar hans um uppreisn til prestskapar). Hann bjó lengi í Flögu í Skaftártungu (er þar 1720 og enn 1753), en síðast í Skál á Síðu, eignarhluta sínum.

Hann fekk umboð Flögujarða 1726 og hélt það lengi; hann varð og lögréttumaður í Skaftafellsþingi 1726 og var það enn 1751. Hann er í ættartölukveri einu (ÍB. 545, Svo.) talinn mikill fræðimaður, en ekki er það líklegt, a.m.k. sjást þess engin merki nú.

Kona 1: Gróa eldri (f . um 1676) Jónsdóttir umboðshaldara í Flögu, Fabíanssonar; hún dó af barnsförum, og segja sumir, að barnið lifði og væri það Gróa, sem átti Hannes Höskuldsson í Keflavík, aðrir segja, að Gróa væri laundóttir hans (í milli kvenna).

Kona 2: Elín (er áður hafði átt laundóttur, Oddrúnu Ólafsdóttur) Einarsdóttir prests á Prestsbakka, Bjarnasonar.

Börn þeirra: Gísli í Flögu, síðar að Fjósum í Mýrdal, en síðast suður í Njarðvík, Gróa, Guðleif (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.