Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Guðmundsson

(um 1704–1740)

Prestur.

Foreldrar: Síra Guðmundur Árnason á Hallormsstöðum og kona hans Solveig Árnadóttir, Eiríkssonar (prests í Vallanesi, Ketilssonar). Tekinn í Skálholtsskóla 1722, stúdent þaðan 1727, var í þjónustu Níels Kjærs lögmanns 1727–28, en fór þaðan til Austfjarða, fekk veiting amtmanns 6. dec. 1729, en byskup neitaði að vígja hann vegna vankunnáttu, lét hann þó vera hjá sér um veturinn, til þess að læra betur. Varð hann þá fyrir áverka frá skólanemöndum, einkum Daða Guðmundssyni, síðar presti í Reynisþingi, og Jakob Eiríkssyni frá Búðum, og var þeim vísað úr skóla í bili, en fengu síðar leyfi til prófs. Hann var loks vígður 4. júní 1730 og hélt Eiða til 1739, er hann sagði af sér, en hafði vegna heilsubrests haft aðstoðarprest (síra Ketil Bjarnason) a.m.k. frá 1738.

Kona: Þorbjörg Einarsdóttir, Marteinssonar (sýslumanns, Rögnvaldssunar).

Börn þeirra (2) komust ekki upp. Þorbjörg ekkja hans átti síðar launbarn, en gekk síðan að eiga Ingimund trésmið Þorsteinsson (HÞ.; SGrBt.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.