Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Brynjólfsson

(um 1720–21. dec. 1783)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Síra Brynjólfur Halldórsson í Kirkjubæ í Tungu og f.k. hans Ragnheiður Ólafsdóttir prests í Kirkjubæ, Ásmundssonar. Fekk Miðdal 10. apr. 1747, vígðist 28. maí eða 4. júní s. á., en tók ekki við prestakallinu fyrr en í fardögum 1748, hafði áður um hríð verið í þjónustu síra Finns officialis Jónssonar, síðar byskups, sem jafnan lét sér mjög annt um hann. Hann reisti frá grunni öll hús í Miðdal og bætti kirkjuna. Í fjárkláðanum missti hann allt fé sitt, að kalla; af 100 ám, er settar voru á vetur, lifðu af 2 kúgildi. Hann missti Miðdal 1764 vegna barneignar fram hjá konu sinni (með Þuríði Magnúsdóttur frá Bryggju í Byskupstungum). Sókti hann oftlega um uppreisn, og fylgdu ágæt meðmæli frá byskupi og amtmanni; t.d. segir Magnús amtmaður Gíslason, að síra Eiríkur sé einhver hinn bezti klerkur á Íslandi og bæði í kenningu og ungmennafræðslu fremri flestum öðrum prestum.

Samt fekk hann ekki uppreisn fyrr en 14. apr. 1780, en fekk ekki prestakall eftir það, þótt sækti. Hann fekk vorið 1765 hálfa Bræðratungu til ábúðar hjá Magnúsi amtmanni Gíslasyni og bjó þar til 1781; fluttist þá að hjáleigu jarðarinnar, Ásakoti, og var þar til dauðadags. Hann var gáfumaður, vel að sér (kenndi ýmsum skólalærdóm) og skáld gott; eru eftir hann sálmar, erfiljóð (t.d. eftir Magnús amtmann Gíslason, pr. í útfm. hans, Kh. 1778) og kvæði, og var stundum kíminn í kveðskap (sjá Lbs.). Hin alkunna þýðing „Gamli Nói“ er ýmist eignuð honum eða síra Eiríki Bjarnasyni í Hvalsnessþingum.

Kona (25. sept. 1748): Valgerður (d. í Skálholti 20. nóv. 1791, þá holdsveik og í kör) Sveinsdóttir klausturhaldara að Munkaþverá, Torfasonar. Af börnum þeirra komst ekki upp nema Brynjólfur stúdent (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.